mánudagur, október 25, 2004

Bíóhelgin mikla

Jæja það var bara enginn tími fyrir bakstur þessa helgi því það var stanslaus gestagangur á laugardaginn og ég varð meira að segja að fara í frystikistuna og ná í köku til að hafa með kaffinu en ég nefninlega bakaði svolítið MIKIÐ fyrir afmælið hans Sigurgeirs og það lenti eitthvað af því í frystinum. Það er auðvitað alveg voðalega gott, þ.e. að eiga kökur í frystinum og betra ef maður vissi af því að einhver ætlaði að koma í heimsókn. Laugardagurinn var sem sagt gestadagurinn mikli, en það er svo skrítið með það, eins og þið vitið, að það kemur enginn í margar vikur og svo virðast allir fá sömu hugmyndina sama daginn og allir mæta. En nú var það svo heppilegt að það kom enginn á sama tíma þannig að maður hafði tíma fyrir alla. Beggi var ekki heima, var að búa til bíl í Reykjavík og kom heim einhverntímann eftir háttatíma.

Nú svo var það bíódagurinn mikli í gær. Geggjað veður þannig að við Sigurgeir fórum hérna upp fyrir með hundana og hittum þar krumma á steini, hundarnir urðu brjálaðir og vildu í krummann, en hann bara sat og sat og krunkaði á okkur og Sigurgeir vildi endilega fara og tala betur við hann en ég hélt hann myndi rjúka í okkur og vildi alls ekki skoða hann nánar. Þannig að þetta var algjört bíó fyrir hundana þó þær fengju nú ekki að elta hann. Hmm kannski greyið hafi verið vængbrotinn, en mig langaði allavega ekki að hann réðist á okkur.

Svo var brunað til Reykjavíkur með Sigurgeir í bíó, hann fór með frændsystkinum sínum í Kópavoginum á Pókimon 5 eða hvað þetta nú heitir allt saman og það var víst voðalega gaman. Ég og Bjartmar fórum ekki fyrr en hann vaknaði og aldrei þessu vant þá bara svaf hann og svaf og ég varð að vekja hann svo við misstum ekki af matnum og bíóinu. Vorum sem sagt boðin í mat hjá Sollu og Valda og Berglind passaði strákana á meðan við fórum í bíó. Mikið rosalega er nú gaman að kaupa sér popp og kók og fara í bíó þ.e. ef myndin hefði verið skemmtileg en við ákváðum með 3 atkvæðum gegn 1 að fara á myndina með Denzel Washington og Meryl Streep og gúúd hevens maður, dj.... sem hún var leiðinleg. Ég hefði nú auðvitað viljað fara á myndina með Richard Gere því hann er svo ógó sætur.
Við vorum ekki komin heim fyrr en um hálf tólf svo það verður geðvonskudagur í dag þar sem allir voru þreyttir í gær.

Og þá er nú bara að baka í dag.......

Selma