þriðjudagur, október 19, 2004

Ekki fleiri NÝ húsgögn í þetta hús!

Nú kaupi ég bara ekki fleiri húsgögn í þetta hús, það er nokk ljóst, búin að fá nóg af gölluðu, vitlausum lit eða eitthvað. Það er nú ekki í frásögur færandi að fólk kaupi sér húsgögn auðvitað en ég verð að segja ykkur þetta. Við erum auðvitað búin að fylla húsið af húsgögnum síðan við komum hingað og viti menn alltaf gallað. Fyrst keyptum við borðstofuborð í vetur á útsölu hjá Tekk, geggjað flott borð og 6 stóla og stilltum þessu hér inn, voða flott. Einn góðan veðurdag kom hár hvellur og stærðar sprunga kom í borðið. Það var hringt og kvartað og þeir komu nú bara og tóku það aftur og við fengum nýtt borð. Í haust ákvað ég að keypt yrði hillusamstæðu í Ikea svo ég gæti raðað öllu draslinu "mínu" einhvers staðar til að þurrka af því endrum og eins. Eftir miklar vangaveltur hér heima var þetta allt klappað og klár og stormaði öll fjölskyldan í Ikea. Það var lítið til af því sem við vildum og það sem var til var gallað og þegar út í bíl var komið kom í ljós að þeir höfðu stungið lyftaragafflinum í gegnum pakkninguna. Inn með hana aftur en engin önnur til og af 4 einingum fórum við með 1 heim og biðum í heilan mánuð eftir restinni. Ég þurfti þá allavega ekki að þurrka af á meðan.
Nú svo varð auðvitað að kaupa sjónvarpsskáp undir allt tækjadótið dvdið, videóið, sjónvarpið, spólurnar og snúrurnar það er nú ekkert smá. Nema hvað fundum fínan skáp og ég spyr afgreiðslumanninn þegar hann er að setja þetta út í bíl hvort þetta sé nokkuð gallað, ég hafi slæma reynslu af slíku. Nei, nei aldrei slíkt hjá þeim en það hefur komið fyrir að við höfum afgreitt vitlausan lit. Ég grandalaus eftir fyrri reynslu og bruna með þetta heim sæl og glöð. Gleðin rennur af mér á sunnudagsmorgni þegar setja á þetta saman. Maður lifandi haldið þið ekki að þetta séu tveir litir á skápnum, keypti kirsuberja en fékk birki og kirsuberja. Okkur féllust hendur og ég var gjörsamlega mát, eina ferðina enn. En ákveðið var að setja þetta bara saman, þannig að sjónvarpsskápurinn er með birkilitaðar hliðar og framhliðin er kirsuberja. Það á örugglega enginn annar svona skáp! nema sá sem kaupir hitt settið......

Selma