mánudagur, mars 28, 2005

Vitið í fríi

Jæja, þá ákvað vitið mitt að fara í frí og ég veit ekki mitt rjúkandi ráð þar til vonandi það verður komið aftur um hádegi á morgun. Tölvan mín ákvað nefninlega að nenna þessu ekki lengur og slökkti á sér í fyrradag og ég verð nú að segja það að ég er nú eiginlega höfuðlaus á eftir. Það er ég er alveg með höfuðið en það er bara ekkert í því. Sem sagt maður sér þegar tölvan er ekki lengur "mem" þá verður maður eins og höfuðlaus her. Eins og þið vitið öll þá er allt í tölvunni hjá manni og aldrei er nú verið að hafa fyrir því að taka afrit af þessu öllu saman en ég get nú eiginlega huggað mig við það að það er "kannski" bara einhver aflgjafi sem er farinn ekki endilega allt vitið, allavega vona ég það. Veit það um hádegi á morgun.

Nú er ég að hamra á tölvuna hans Begga sem ekki er með ADSL og jeminn það tekur allan daginn að bíða eftir síðunum að poppa upp svo maður nennir því nú ekki, gott ráð til að aftölva sig að fara í svona gamaldags tölvur en hér er búið að vera svo mikið að gera undanfarna daga að ég hef hvort sem er ekkert mátt vera að því að vera í tölvunni.

Fyrst komu Fanney, Óskar og krakkarnir hingað suður yfir heiðar og voru í bústað hérna á Núpi, þau komu svo í mat hingað á föstudaginn langa og mamma og Gummi bróðir og Ólöf líka og ég eldaði að sjálfsöðgu lambalæri áður en þau verða uppseld en það á víst að gerast í sumar segja blöðin. Ég var með þrjár mismunandi kryddtegunir á þeim, þ.e. lambalærunum ekki fólkinu og aldrei bregst það, ógó gott og vel heppnaður dagur. Virkilega gaman að fá fólk í mat, það er svo gaman að borða með skemmtilegu fólki ......

Strákarnir, þ.e. mínir og Fanneyjar, fóru allir í sund bæði á fimmtudag og föstudag og meira segja Bjartmar fór líka þótt hann væri með kvef. Ég held honum hafi ekki fundist neitt leiðinlegt en honum var víst eitthvað kalt því hann mátti ekki vera að því að vera alltaf ofan í vatninu og það var víst ekki 20 stiga hiti úti. En honum var ekki meint af.

Jæja á páskadag fórum við í fjöruferð hérna niður eftir og það var alveg svakalega gaman, alein í heiminum og Bjartmar vildi auðvitað bara strauja á haf út en við héldum aftur af honum. Við hefðum alveg getað verið þarna allan daginn því þarna sem við vorum sáum við ekkert nema hafið og sandhóla og það var fjara og þónokkuð brim þó það væri alveg logn. Sem sagt algjört æði og allir dauðuppgefnir þegar heim kom, meira segja hundarnir voru þreyttir eftir þessa ferð.

Í dag klifum við Sigurgeir og hundarnir Hamarinn og síðan skruppum við öll aðeins í kaffi í Kópavoginn og enduðum á Pizza Hut svona til tilbreytingar.

Og á morgun kemur vitið vonandi aftur.......

Selma